Þóra Marteinsdóttir

Þóra MarteinsdóttirÞóra Marteinsdóttir er fædd árið 1978 og uppalin í Kópavogi. Snemma hóf hún nám í píanóleik við Tónlistarskólann í Kópavogi undir handleiðslu Hrefnu Eggertsdóttur. Í maí 1998 útskrifaðist hún af tónlistarbraut Menntaskólans við Hamrahlíð og hóf nám í tónsmíðum og píanóleik í Tónlistarskólanum í Reykjavík um haustið. Þóra lauk námi við Tónlistarskólann í Reykjavík vorið 2001. Meðal kennara hennar þar voru Atli Heimir Sveinsson, Mist Þorkelsdóttir og Peter Maté. Haustið 2001 hélt Þóra í framhaldsnám í tónsmíðum og settist á skólabekk við Tónlistarháskólann í Gautaborg. Hún útskrifaðist þaðan í maí 2005. Aðalkennarar hennar þar voru Staffan Mossenmark og Ole Lützow-Holm. Að því loknu lá leiðin heim til Íslands og stundaði Þóra nám í kennslufræðum við Listaháskóla Íslands veturinn 2005-2006. Nú kennir Þóra tónmennt og tónfræði á ýmsum stöðum, stjórnar Barnakór Vatnsendaskóla auk þess að semja tónlist við ýmis tilefni.

Verk eftir Þóru hafa komið út á diskunum Minn heimur og þinn með Ásgerði Júníusdóttur, Þýtur í stráum með Skólakór Kársness, Hljóður lýt ég hátign þinni með Dómkórnum í Reykjavík og Heyr mig mín sál með Hymnodiu.