Michael Jón Clarke

Michael Jón ClarkeMichael Jón Clarke hefur starfað á Akureyri um 39 ára skeið sem fiðlu-og söngkennari og sem kór- og hljómsveitarstjóri. Hann stundaði fiðlu- og söngnám til graduate prófs við Trinity tónlistarháskólann í London og framhaldsnám við háskólann í Suður-Illinois í Bandaríkjunum. Árið 1990 stundaði hann söngnám við Royal Northern College of Music hjá Ryland Davies og lauk postgraduate prófi úr óperudeild skólans 1991.

Michael Jón var fyrsti kennari á Íslandi til að innleiða Suzukikennslu sem hann lærði hjá John Kendall í Southern Illinois University í Bandaríkjunum. Michael hefur verið fenginn til að kenna á fjöldamörgum námskeiðum í Bretlandi, Bandaríkjunum og á Íslandi.

Michael Jón stofnaði og stjórnar Sinfóníuhljómsveit Tónlistarskólans á Akureyri. Michael var fiðlu- og víóluleikari hjá í Kammersveit Akureyrar og síðar Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, og hefur hann verið bæði meðlimur, konsertmeistari og síðan oft á tíðum einsöngvari.

Michael Jón söng aðalhlutverk í uppfærslu Íslensku Óperunnar á Carmina Burana og hefur sungið fjöldamörg önnur óperuhlutverk. Hann frumflutti verk Ólivers Kentish “Mitt fólk” með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Háskólabíói undir stjórn Osmo Vänksa.

Michael Jón söng baritón-einsöngshlutverk í sálumessu Duruflé með Mótettukór Hallgrímskirkju sem var flutt víðsvegar í Evrópu og gefin út á geisladisk af Thorofon.

Michael Jón hefur verið einsöngvari hjá fjöldamörgum kórum, haldið einsöngstónleika víða hér heima og erlendis og sungið inn á marga diska. Hann hefur stjórnað fjölda kóra og er bæði stofnandi og stjórnandi Kórs Tónlistarskólans á Akureyri. Hann var stjórnandi Karlakórs Akureyrar-Geysir 1985-1990 og 2004-2006.

Hann var bæjarlistamaður Akureyrar 1997.

Hann er ötull tónlistarmaður, eftirsóttur kennari og kórstjóri og virtur einsöngvari. Á fjórða tug fyrrverandi nemenda hans eru nú starfandi atvinnumenn í tónlist í dag, bæði strengjahljóðfæraleikarar og söngvarar.

Michael Jón tók þátt í flutningi Hymnodiu – Kammerskórs Akureyrarkirkju á nýju kórverki sínu byggðu á íslenska þjóðlaginu “Blástjarnan” í beinni útsendingu Ríkisútvarpsins frá fyrstu Sjónlistaverðlaunaafhendingunni 22. september 2006 við frábærar mótttökur áheyrenda. Hann er miðlimur og raddþjálfari hjá Hymnodiu sem gaf út disk með verkum íslenkra kvenntónskálda 2008.

Michael Jón hefur haldið fjölda tónleika með Þórarni Stefánssyni píanóleikara á 20 útsetningum sínum á íslenkum þjóðlögum, síðast í Ketilhúsinu á Akureyri og Þjóðlagahátíð á Siglufirði. Einnig hefur hann flutt söngflokkinn „Úr saungbók Garðars Hólm“ meðal annars í Laugaborg, Bifröst, Reykjavík og á Gljúfrasteini í viðurvist tónskáldsins, Gunnars Reynis Sveinssonar, sumarið 2007.

Michael Jón kennir nú við Tónlistarskólann á Akureyri þar sem hann er söngkennari, fagstjóri tónlistardeildar og stjórnar sinfóníuhljómsveit skólans. Hann skipulagði haustið 2008 söngnámskeið með kennara sínum, Ryland Davies.

Nýleg hlutverk:

Ben í “The Telephone” eftir Menotti.

Söngleikjatónleikar í Hofi 2011.

Óperudraugurinn “Phantom of the Opera”

Aeneas í “Dido og Aeneas” óperuflutningur í Hofi 2012.

Michael hefur snúið sér að tónsmiðum síðustu árin. Verk hans “Passíusálmar” frumflutti hann ásamt Eyþóri Inga Jónssyni orgelleikara í Akureyrarkirkju á vegum listvinafélags kirkjunnar við einróma lof gagnrýnenda. Orgelverk hans verða frumflutt í Hallgrímskirkju vorið 2014 og verða einnig gefin út í bókarformi og hljóðrituð. Hann hefur samið verk fyrir Hymnodiu sem hljóma á nýútkomnum diski kórsins og fyrir dúettinn Sister Sister ásamt mörgu öðru.