Gísli Jóhann Grétarsson

GJ2_small

Gísli Jóhann Grétarsson (f. 1983) er fæddur og uppalinn Akureyringur. Hann lauk burtfararprófi á klassískan gítar frá Tónlistarskólanum á Akureyri árið 2003. Árið 2007 fluttist hann til Svíþjóðar og hóf nám í tónsmíðum við Tónlistarháskólann í Piteå, þaðan sem hann lauk BA prófi árið 2010. Sama ár byrjaði Gísli í meistaranámi við áðurnefndan háskóla sem hann lauk vorið 2012. Aðalkennari Gísla var prof. Jan Sandström, en hann hefur einnig lært gítarútsetningu og tónsmíðar hjá prof. Jan-Olof Eriksson og orgeltónsmíðar hjá prof. Hans-Ola Ericsson. Samhliða tónsmíðanáminu tók Gísli áfanga í hljómsveitarstjórnun hjá prof. Petter Sundkvist og kórstjórn hjá prof. Erik Westberg. Sem lokaverkefni bæði í BA- og MA-námi sínu samdi hann, stjórnaði og sá um uppsetningu á „mini-óperum“.

 

Á undanförnum árum hafa tónverk Gísla verið flutt af ýmsum tónlistarhópum, kórum, kammersveitum og sinfóníuhljómsveitum í Svíþjóð, Noregi og á Íslandi. Gísli hefur náin tengsl við Akureyrarkirkju og kóra hennar, og má þar nefna frumflutning kammerkórsins Hymnodiu á spunakórverkinu Upplifun á Myrkum músíkdögum 2010, og í desember sama ár frumflutti Sænski kammerhópurinn Norrbotten Neo verkið Jökull i Studio Acusticum i Piteå. Í maí 2011 frumflutti kór Akureyrarkirkju afmælissálm í tilefni af 70 ára afmæli kirkjunnar. Í maí 2012 var ljóðaflokkurinn Árstíðirnar frumfluttur í íslenska sendiráðinu í Oslo, og í ágúst sama ár var frumflutt kórverkið Tröppurnar í menningarhúsinu Hofi á Akureyri, sem samið var sem gjöf til Akureyrarbæjar í tilefni 150 ára afmæli bæjarins.

Í janúar 2013 frumflutti sænski strengjakvartettinn Kristall Kvartetten verkið Vinterstilla i Piteå. Verkið var hluti af stóru verkefni þar sem kvartettinn frumflutti verk eftir fjögur tónskáld sem höfðu tengingar við norður-Svíþjóð og var styrkt af Norrbottens läns landsting. Í maí 2014 mun Kristall Kvartetten flytja verkið á alþjóðlegu tónlistarhátíðinni Classical: NEXT i Vín.

I maí 2013 tók Gísli þátt í alþjóðlegri óperuvinnustofu í Umeå í Svíþjóð. Vinnustofunni lauk með tónleikum í Norrlandsoperan, og var þáttur í tónleikaröð og undirbúningi “Umeå menningarborg Evrópu 2014”.

Þessi stundina vinnur Gísli að harmónikkukonsert fyrir sænska harmónikkuleikarann David Wahlén, sem var kosinn harmónikkuleikari ársins 2012 í Svíþjóð. Konsertinn verður frumfluttur haustið 2014.

Nú vinnur Gísli sem þjóðlagaráðunautur í Buskerud fylki, ásamt því að vera stjórnandi Ískórsins, íslenska kórsins í Osló.

GJGretarsson.com