Bára Grímsdóttir

Bára GrímsdóttirBára Grímsdóttir (*1960) er tónskáld, söngkona, kórstjóri og tónlistarkennari. Hún hefur verið varaformaður Kvæðamannafélagsins Iðunnar frá 2007. Hún útskrifaðist úr Tónmenntakennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík 1983 og Tónfræðideild frá sama skóla 1989, fór til Hollands í framhaldsnám í tónsmíðum og lærði m.a. hjá Louis Andriessen. Hún hefur skrifað fjölda verka fyrir kóra en einnig samið fyrir einleikshljóðfæri, kammerhópa, hljómsveitir. Hún hefur einnig samið leikhústónlist. Verk hennar hafa verið flutt á Íslandi,
Norðurlöndunum, víða í Evrópu, Ástralíu, Kína og í Bandaríkjunum. Bára hefur verið Staðartónskáld á sumartónleikum í Skálholti, þar hafa mörg verka hennar verið frumflutt. Hún hefur fengið viðurkenningar fyrir tónsmíðar og menningarstörf.
Mörg verka hennar hafa verið hljóðrituð og gefin út á geisladiskum í flutningi söngvara, hljóðfærarleikara og ýmissa kóra, þar á meðal Vox Feminae og Kammerkórs Suðurlands. Á geisladisknum “Virgo Gloriosa” (2003) eru eingöngu verk eftir Báru í flutningi kammerkórsins Hljómeyki. Var diskurinn tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna.

Bára ólst upp við rímna- og kveðskaparhefðina á æskuheimili sínu Grímstungu í Vatnsdal. Hún hefur flutt rímnalög og þjóðlög á tónleikum á Íslandi og víða erlendis einnig í útvarpi og sjónvarpi, ein og einnig með öðrum tónlistarmönnum. Síðan 2002 hefur hún  starfað með enska söngvaranum og gítarleikaranum Chris Foster, heitir tvíeykið Funi. Þau hafa gefið út geisladiskana Funi (2004), Man eg (2010) og Flúr (2013) og fengið mikið lof fyrir þá.