Lára Bryndís Eggertsdóttir

 

Lára Bryndís Eggertsdóttir er hugmyndasmiðurinn á bak við tónlistarverkefnið „Ég heyrði þytinn frá vængjum þeirra“ og stýrir framvindu þess harðri hendi. Hún er fyrst og fremst orgelleikari – með margvíslegt tónlistarnám að baki – og býr núna ásamt fjölskyldu sinni í Danmörku. Þegar Lára er ekki að fást við uppeldi barnanna þriggja (Ágúst Ísleifur 2008, Hekla Sigríður 2010 og Jörundur Ingi 2012), ásamt eiginmanni sínum Ágústi Inga Ágústssyni lækni og orgelleikara, reynir hún að koma íslenskri orgeltónlist á framfæri út um víðan völl auk þess að starfa sem organisti við Sønderbro kirkju í Horsens. Hún tekur einnig virkan þátt í tónlistarlífinu á Íslandi og heldur reglulega einleikstónleika bæði á höfuðborgarsvæðinu og víðar um landið. Lára hefur sérstaklega sterk tengsl við Langholtskirkju þar sem hún tók þátt í fjölbreyttu kórastarfi og lék fyrst í messu 14 ára gömul, og Hallgrímskirkju sem var aðalvettvangur orgelnáms hennar á Íslandi.

Lára Bryndís er fædd í Reykjavík árið 1979 og ólst upp í Kópavogi. Sex ára gömul hóf hún nám í píanóleik, lengst af undir handleiðslu Árna Harðarsonar í Tónlistarskóla Kópavogs og síðar Halldórs Haraldssonar, og lauk 8. stigi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 1998. Þá snéri hún sér að orgelnámi og eftir að hafa lokið stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1999 lauk hún 8. stigi á orgel ásamt kantorsprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar vorið 2001 og einleikaraprófi ári síðar, ásamt því að taka próf við Tónlistarháskólann í Piteå í Svíþjóð. Aðalkennarar hennar voru Hörður Áskelsson á Íslandi og prófessor Hans-Ola Ericsson í Svíþjóð. Einnig lauk Lára burtfararprófi í söng frá Söngskólanum í Reykjavík vorið 2004. Lára Bryndís hefur leikið á fjölmörgum meistaranámskeiðum á Íslandi og erlendis, meðal annars hjá Jennifer Bate, Harald Vogel, Mattias Wager, Daniel Roth, Michael Radulescu, Susan Landale og Winfried Bönig.

Lára hefur mikinn áhuga á náttúru Íslands og er menntuð sem gönguleiðsögumaður frá Leiðsöguskóla Íslands (2007). Henni þykir þó nokkuð tafsamt að ferðast gangandi um landið og hefur því einnig lagt stund á hjólreiðar af miklu kappi og lumar á nokkrum bikurum. Íslandsmeistarabikarinn (tímataka í götuhjólreiðum 2007) og Bláalónsþrautarbikarinn (2009) eru flottastir.

Lára Bryndís hefur verið búsett í Danmörku síðan árið 2008 og stundaði framhaldsnám í orgel- og semballeik við Tónlistarháskólann í Árósum þar sem aðalkennarar hennar voru Ulrik Spang-Hanssen, Lars Colding Wolf og Kristian Krogsøe. Hún lauk B.Mus. prófi árið 2010 og Cand.Mus. prófi vorið 2014.