Ég heyrði þytinn frá vængjum þeirra

Velkomin á heimasíðu orgeltónlistarverkefnisins „Ég heyrði þytinn frá vængjum þeirra“ – samstarf Láru Bryndísar Eggertsdóttur, organista, og sjö íslenskra tónskálda.

Orgeltónlistarverkefni Láru – Ég heyrði þytinn frá vængjum þeirra – er mjög metnaðarfullt og þýðingarmikið fyrir nýsköpun tónlistar á Íslandi. Með því nær hún að gefa mörgum íslenskum tónskáldum tækifæri til að semja orgeltónlist fyrir íslenska organista til flutnings í kirkjum landsins. Eins og verkefnið er sett fram eru miklar líkur á að það framkalli nýja aðgengilega tónlist sem þörf er fyrir og fái vængi í lifandi helgihaldi.

Hörður Áskelsson organisti Hallgrímskirkju, fyrrverandi söngmálastjóri þjóðkirkjunnar

Orgelið er hljóðfæri sem hljómar í kirkjum landsins árið um kring, og óteljandi þeir kirkjugestir sem njóta þess að hlusta á fagra tóna úr orgelpípunum. En gætum við fengið að að heyra eitthvað íslenskt? Eitthvað gamalt og gott? Jú, það er alveg hægt, því mikið af þeirri orgeltónlist sem við eigum er einmitt nokkuð gömul á íslenskan mælikvarða. Páll Ísólfsson er til dæmis eitt af þeim frábæru tónskáldum svo ekki sé minna sagt sem hafa auðgað íslenskt tónlistarlíf, og hann var jafnframt organisti og samdi glæsileg orgelverk sem oft eru flutt á tónleikum, en kannski ekki svo mörg smærri verk sem gott er að grípa til þegar organista vantar eftirspil fyrir næsta sunnudag. Önnur tónskáld héldu sig sum hver svo að segja á hinum endanum á skalanum og skrifuðu smærri verk fyrir harmóníum – mörg hver fallegar tónsmíðar en vart nógu rismikil sem eftirspil í stórri kirkju. Þarna vantar ákveðinn milliveg.

En ef við skoðum hvað er að gerast í orgelheiminum akkúrat núna: Gætum við fengið að heyra eitthvað íslenskt? Eitthvað nýtt og spennandi? Það er jú staðreynd að þar sem ekki er framþróun, þar er hætta á stöðnun. Það á ekki síður við um listina en annað, og því hafa tónskáld gegnum aldirnar leitast við að endurskoða og umbylta ríkjandi tónlistarhefðum (að vísu oft í óþökk samtímamanna sinna ef tónskáldin hafa verið of langt á undan sinni samtíð!). Mörg íslensk tónskáld hafa einmitt í seinni tíð nýtt sér fjölbreytta eiginleika orgelsins og skrifað virkilega spennandi verk, tónlist sem getur verið ögrandi bæði fyrir hljóðfæraleikarann og áheyrandann, eða sent hlustendur hálfa leið til draumheima með seiðandi og ljúfum orgeltónum. Því miður hentar ekki nema hluti þeirrar tónlistar til notkunar á einmitt því sviði sem almenningur hefur mesta tengingu við, nefnilega orgeltónlist við helgihald. Löng hefð er fyrir því að organistar leiki stutt orgelverk í upphafi og við lok kirkjuathafna. Það er ekki síst tíminn sem setur organistanum skorður hvað varðar tónlistarvalið (yfirleitt hentar að leika verk sem er 2-4 mínútur að lengd), og eins sækja menn að sjálfsögðu í það sem þeir þekkja – oftar en ekki „gömlu góðu“ tónskáldin eins og þá Bach og félaga.

Ég hef þó margoft verið spurð að því bæði á Íslandi og í Danmörku þar sem ég hef starfað sem organisti undanfarin fimm ár, hvort ekki sé hægt að fá að heyra eitthvað íslenskt. Kollegar mínir á Íslandi hafa margir hverjir sömu sögu að segja og þyrstir eftir hentugu íslensku efni. Ætlunin með verkefni mínu er að auka úrval nýrrar íslenskrar orgeltónlistar með sérstaka áherslu á að hún henti til notkunar við helgihald, t.d. hvað varðar lengd verkanna. Þó að hér sé um framþróun og nýsköpun að ræða eru tónskáldunum settar þær skorður að tónlistin megi ekki verða framúrstefnulegri en svo að hún falli í kramið hjá bæði organistum og áheyrendum NÚNA en ekki eftir 100 ár.

Hugmyndin að verkefninu kviknaði árið 2011 í tengslum við fagið „Entreprenørskab“ sem er hluti af náminu við Tónlistarháskólann í Árósum, og þróaðist síðan yfir í hugmynd að kandidatsverkefni frá sama skóla vorið 2014. Vegna góðra undirtekta tónskálda, organista og styrktaraðila hefur verkefninu vaxið fiskur um hrygg og til stendur að tónverkin komi út bæði á geisladisk og á nótum, og þau verða kynnt á öllum Norðurlöndunum.

Sérstakar þakkir fá þeir fjölmörgu styrktaraðilar sem gera mér kleift að sigla svo fjárfreku verkefni úr vör, Listvinafélag Hallgrímskirkju sem tók kynningartónleikana 1. júní 2014 undir vængi sína, Félag íslenskra organleikara FÍO fyrir kynningarstarf, Margrét Guðjónsdóttir fyrir margvíslega aðstoð og allir aðrir sem hafa hjálpað mér með ráðum og dáðum.